Ninja heilahvíld Tilfinningarþjálfun með núvitundaraðferð.
Núvitundaræfingar eru góðar í að þjálfa barnið í að hlusta á tilfinningar sínar og kynnast röddinni innra með sér.
Auka jafnvægi, einbeitingu og innri frið.
Áhrif: Aukin friðsemd (innri ró), skilningur og aðgreining á tilfinningum, aukin núvitundarhæfni og vellíðan.
Barnið lærir að þegar það sækist í frið og ró geti það gert þessa æfingu sjálft.
Sérstaklega ef það glímir við kvíða, depurð eða streitu.
Núvitundaræfing: Einföld en mjög áhrifarík æfing.
Leiðbeiningar og markmið:
Góður grunnur að æfa og auka núvitundarhæfni.
Þessa æfingu er gott að gera þegar barnið er í jafnvægi en þreytt.
Þessi æfing er tilvalin með ýmsum tilbrigðum í hóp, skólastofu þegar hamagangurinn er mikill og erfitt að fá hljóð.
Eða að barnið er kvíðið eða líður illa vegna einhvers.
Ath. Leiðbeiningar til forráðamanns:
Þessi æfing er góð til að hjálpa barni til að slaka á.
Ef þessi æfing gengur vel má færa sig á næsta stig æfingarinnar, annars að láta staðar numið og gera þessa æfingu aftur síðar og lengja tímann og það úthald sem barnið hefur.
Okkur getur liðið allavega og fundið fyrir alls konar tilfinningum. Eins verðum við vör við eins og það sé rödd inní höfðinu á okkur sem er sífellt að tala.
Við getum kynnst bæði tilfinningum og röddinni með að fara í Ninja heilahvíld.
Til að gera það þurfum við að æfa okkur í að kyrra hugann.
Þá fyrst getum við hlustað á tilfinningar okkar og haft áhrif á röddina í höfðinu á okkur.
Við getum líka lært að slökkva á þessari háværu rödd. Alla vega lært að stjórna henni.
Undirbúningur útskýring fyrir ninja heilahvíld.
Til að æfa heilahvíldina þurfum við að gefa heilanum pásu með að slökkva á öllum hávaða sem er að jafnaði í kringum okkur.
Þetta þarf að hafa í huga!
- Slökkva á tölvum, símum, ekki tala við neinn, lokum gluggum og hurðum.
Það hjálpar okkur að lækka hávaðann í hausnum á okkur og öllu Bzzzi sem veldur ringulreið í hugsunum.
- Koma sér þægilega fyrir, (hvar sem þú ert) liggjandi eða sitjandi í stól. Koma sér í hvíldarstöðu og loka augunum.
- Einbeita sé að önduninni.
Finna fyrir önduninni. Anda inn og anda út.
Þegar þú ert búin að ná ró og kyrrð getur þú farið að gera æfinguna.
Það getur verið óþægilegt í byrjun að æfa sig í að hlusta á þögnina en það venst og þú lærir að finnast það eftirsóknarvert og gagnlegt. Gott.
Þegar þú gerir þessa æfingu ertu að þjálfa súperkrafta þína.
Súperheyrn og súperskynjun.
Þegar þú heyrir eitthvað hugsaðu hvað það er og leitaðu svo eftir hvort þú heyrir eitthvað annað hljóð?
Hugleiðslan:
Lokum augunum.
Það er gott að byrja á að dæsa.
Anda vel inn í brjóstið og anda hratt út.
Gerum þetta tvisvar.
Nú skulum við anda inn um nefið og aftur út um nefið.
Fyrsta sem við gerum er að læra að þykja gott að hlusta á þögnina.
En munum að við erum að anda í gegnum nefið inn og út.
Fylgjumst með þegar við öndum inn og út.
Nú skulum við skoða hvernig okkur líður þegar við erum að hlusta á þögnina.
Hvað heyrum við?
Er þögn?
Eða heyrir þú eitthvað?
Hvað?
Ekki segja neitt.
Taktu bara eftir því sem þú heyrir.
Hljóð í bíl!
Einhver að tala úti!
Hlustaðu.
Athugaðu hvort þú heyrir eitthvað annað?
Hvaða lykt finnum við?
Munum að við erum að anda inn og út!
Er kalt – heitt eða mátulegt í herberginu?
Muna að anda inn og út!
Ertu var við einhverjar hugsanir? Láttu þær bara fara fram hjá.
Og andaðu inn og út!
Nú skaltu draga djúpt inn andann og anda rólega frá þér.
Opna augun hreyfa fingur tær hendur og fætur og setjast rólega upp.
Með þessari stuttu æfingu hefur þú róað líkamann og skýrt hugann.
Þó þú finnir ekki mikinn mun í byrjun þá kemur það smátt og smátt og þú verður betri í ninja æfingunum.
Elísabet Gísladóttir Lýðheilsusetrid Ljósbrot